EmmaSol
Gluggar! "Ætlar þú að vera úti að mála á bleikum náttkjól einum fata þegar JÁ/Google bíllinn mætir?"
Updated: Nov 19, 2019
Myndir: Fengnar af heimasíðu Schüco, sem fást hjá Berki www.borkur.is
Það er að mörgu að huga þegar það kemur að því að velja sér glugga. Ótrúlegt en satt! Einingarhús eru oft með staðlaðar gluggastærðir, en þegar hús eru hönnuð af arkitektum er meira verið að spá í útliti, útsýni og birtu og þar af leiðandi gluggarnir ekkert endilega staðlaðir.
Í dag þarf líka að velja efni í glugga, en það eru ekki allir með hefðbundna timburglugga. Þeir gluggar sem við skoðuðum voru:
Timburgluggar:
Timbur gluggar eru þá úr timbri, bæði að innan og utan. Þetta eru/voru líklega algengustu gluggarnir. Oft framleiddir/smíðaðir hér á landi.
Kostir:
Hægt að steypa þá í steypumótin, sem gerir eftirvinnuna auðveldari og húsið verður fyrr fokhelt.
Timburgluggar eru yfirleitt hagstæðari en til dæmis ál-ál gluggar.
Hægt er að lengja líftíma gluggana, með því að endurnýja að hluta, mála og þrífa reglulega.
Eingangra - hleypa ekki kulda/hita inn.
Gallar:
Viðhald á timburgluggum er meira en af öðrum gluggum að utan (enda lifandi efni), þó málning í dag og þétting á viðnum sé orðin nokkuð góð fyrir íslenska veðráttu máttu gera ráð fyrir að þurfa að mála og skrapa á 10 ára fresti.
Húsið okkar er mjög hátt og því gæti orðið erfitt að mála hæstu gluggana.
PVC gluggar (plast):
Plast gluggar eru oft hagstæðari lausn, og eru eins og gefur til kynna eingöngu úr plasti.
Kostir:
Plastgluggar þurfa lítið viðhald
Plastgluggar eru ódýrarasti kosturinn
Margir litir í boði og áferð og litur á víst að halda sér
Einangrunargildi er mikið
Gallar:
Við erum ekki alveg sannfærð um að litur og áferðin eigi eftir að halda sér
Líftími plastsins á að vera góður
Ef gluggi byrjar að leka eða skemmast, þarf að skipta út öllum glugganum
Viðhald er að þrífa gluggana, bera á lamir og annað
Ál-Ál gluggar
Ál gluggar eru þá gerðir úr áli, bæði að innan og utan, oft er eingangrun úr plasti til að slíta í burtu kulda/hitaleiðni álsins.
Kostir:
Rammarnir léttir
Þægilegir í ísetningu
Yfirburðar veðurþol
Hægt að fá alla liti og hafa mismunandi liti að innan og utan Álrammakerfi, myndir af heimasíðu Schüco
"Viðhaldsfrítt" - þarfnast þrifa
Mikill styrkur - hentar því vel í stóra glugga án pósta og rennihurðir
Gallar:
Ál inni, getur átt það til að svitna
Erfitt er að laga rispur eða skemmdir
Ál leiðir hita og kulda, þess vegna nauðsynlegt að slíta álið frá með einangrun
Timbur/ál:
Í raun álklæddir timburgluggar. Klæddir áli að utan og timbur að innan. Timburálgluggar eru orðnir mjög vinsælir gluggar í dag.
Kostir:
Veðurþol álsins nýtist að utan
Timbur útlitið og styrkurinn nýtist að innan
Hægt að velja alla liti og mismunandi liti að innan og utan
Hægt að mála gluggana að innan eftir tískustraumum
Slítur kuldaleiðni álsins með timbrinu að innan
Gallar:
Viðhald glugganna að innan?
Til að viðhalda styrk glugga (glersins), er víst gott að þrífa þá reglulega. Ég veit ekki ennþá hvernig við eigum eftir að þrífa gluggana, hangandi í spotta? Fá okkur háa stiga eða bara fá fagmenn í verkið.
Sólveig hefur verið böstuð að mála timburgluggana í sínu húsi, af Google-bílnum, kasólétt í náttkjólnum einum fata, gott að andlitið er blörrað!
Varma einangrun og hljóðeinangrun
Annað sem gott er að huga að er eingangrunin á milli glerja. Þetta getur skipt miklu máli varðandi varmatap og hljóðeinangrun. Við miklar umferðagötur getur hljóðeinangrun skipt miklu máli. Oft eru gastegundir notaðar á milli glerja og plasteinangrun til að auka einangrunina. Fyrir betri hljóðeinangrun er bil á milli glerja og þykkt glersins misjöfn.
Í dag er að sjálfsögðu enginn með einfalt gler, flestir með tvöfalt, en sumstaðar þrefallt gler. Þrefallt gler gefur þá meiri styrk t.d. fyrir rennihurðir og stóra glugga. Þrefallt gler er líka hljóðeinangrandi og með meira einangrunagildi. Margir segja að þetta gefi þér bara um 3 desbil í auka hljóðvist, mögulega minna varmatap og þar að leiðandi ódýrari hitareikninga, en yfir tíma þá náir þú ekki að greiða upp glerið á móti sparnaðinum fyrir orkureikningana.
Einangrun og græn leið
Betri eingangrun getur líka fengist með tegund glerja, en nú er þetta orðið of nördaleg grein. Í dag nota flestir svokölluð einangrunargler en þau eru líka með mismunandi staðla, þ.e.a.s. hversu mikið þau hleypa varma út/kulda inn.
Með góðu gleri, vel einangruðum og góðum gluggum má koma í veg fyrir mikið varmatap og spara orku. Við völdum að setja dýrara plast á milli sem slítur í sundur kuldaleiðni álsins, og býr til meiri einangrun. Þó orka sé ódýr á Íslandi er nauðsynlegt að vera meðvitaður og reyna að vera grænni. Ál er líka endurvinnanlegt.
Sólvarnargler
Ofan á allt er hægt að fá sólvarnargler, það er þá aðeins skyggt og getur oft komið sér vel þegar gluggarnir eru stórir. Birtan kemur vel inn, en takmarkar sólargeislana. Þetta gler er oft aðeins dýrara en virðist ekki muna miklu í stóru myndinni.
Það eru fjöldi fyrirtækja sem framleiða eða flytja inn glugga á Íslandi í dag og nauðsynlegt að fá tilboð og fara á staðinn og skoða hvað er í boði. Sum fyrirtæki flytja inn sömu glugga merkin en frá mismunandi verksmiðjum/birgjum og getur munað miklu í verði. Flestir flytja inn ál glugga en t.d. Börkur smíðar alla timburglugga hér á landi.
Gluggarammarnir og tegundir þeirra eru líka mismunandi.
Vindþol
Vindþol: allir gluggar á Íslandi verða vera með UE stöðlum. Auk þess að þola veður og vinda hér, sem geta verið töluvert kröftugri en gengur og gerist kannski í stórborgum í Evrópu. Gæta þarf því að gluggarnir þoli vindþol samkvæmt verkfræðingunum.
Já, ég held að við séum orðnir gluggaNÖRDAR!
Samhliða gluggunum eru oft miklar hurðapælingar, þ.e.a.s. utandyrahurðir. Það er hins vegar efni í heilan póst.... meira um það síðar!
Hvað völdum við svo?
Niðurstaðan hjá okkur er sú að við vildum velja viðhaldsfrítt en mikil gæði og glæsileika. Ákveðið var því að velja ál-ál glugga. Við vorum ákveðin í að velja ál að utan. Eftir að hafa skoðað möguleika og styrk álsins innanhús, þá sérstaklega fyrir rennihurðir og stóru gluggana í stofunni, þótti okkur álið vega meira en timbrið.
Við völdum því framleiðanda sem er þýskur og heitir Schüco, við ákváðum ekki að velja sérstakt einangrunargler eða sérstakt hljóðvarnargler, heldur velja þrefallt gler með sólvarnargleri og fá "bit of both".
Allt hefur sína kosti og galla, en okkur fannst og teljum þetta veita okkur næst því sem við vildum. Heildarlausnin kemur að okkar mati betur út svona. Við erum búin að liggja yfir gluggateikningum, velja gler og gæði, ramma og liti og ég veit ekki hvað og hvað.
Börkur seldi okkur þennan pakka og við erum mjög spennt að sjá útkomuna. Börkur bíður upp á mikil gæði á hagstæðum kjörum.
Hlökkum til að sýna ykkur meira af gluggunum þegar þeir koma til landsins, ísetningu og fleira.

Tips 1: Veljið út frá ykkar þörfum
Tips 2: Reynið að vera græn
Tips 3: Óskið eftir tilboðum, verð og gæði haldast ekki alltaf í hendur
Tips 4: Verið þið svolitlir nördar, það borgar sig !
#gluggar #doubleglazing #tripleglazing #windows #börkur #samverk #schuco #aluminumwindows #emmasol #schüco #aðbyggjasérhús