EmmaSol
Afhverju ætti að kenna táknmál ?
Skrifað af Emiliu Christinu Gylfadóttur, móður Christofers 5 ára stráks með verulega heyrnaskerðingu, dagsetning 10.02.2022.

Afhverju er táknmál ekki hluti af skyldukennslu í öllum grunn- og leikskólum landsins?
Ég hef enn þann dag í dag ekki hitt neinn sem hefur sagt "neiiii veistu mér finnst að skólar landsins ættu ekki að vera með táknmálskennslu!".
Hver er þá ástæðan fyrir því að annað móðurmálið okkar, íslenskt táknmál, er ekki hluti af skyldunámi?
Ég er auðvitað langt í frá hlutlaus, ég geri mér fulla grein fyrir því. Stundum þarf maður virkilega spark í rassinn til að opna augun! Ég ætla því að gera mitt allra besta að opna augu ykkar.
Mynd tekin af: Félag heyrnalausra
Christofer sonur okkar greinist með miðlungs heyrnarskerðingu í júní 2018 þá tveggja árq gamall.
Sumarið 2019 kom í ljós að heyrnin hans hafði hrakað verulega og núna árið 2022 er Christofer alvarlega heyrnarskertur. Hann er búinn að fara í óteljandi heyrnarmælingar sem og tvær svæfingar til að framkvæma heilastofnsmælingu.
Í samvinnu við lækna mátum við það best fyrir Christofer að fara sem fyrst í kuðungsígræðslu. Sú ákvörðun var tekin á innan við viku því hver dagur skiptir máli í máltöku barns og Christofer var þá að verða þriggja ára. Fyrst var gerð aðgerð á vinsta eyra og nokkrum mánuðum síðar á því hægra.

Kuðungsígræðslutæki (CI) er hjálpartæki sem gefur alvarlega heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki möguleika á að heyra hljóð. Tækið framkallar hljóðáhrif með því að örva heyrnataugina með rafmagni. Kuðungsígræðslutækið er samsett úr innri hluta, sem er græddur í eyrað með aðgerð, og ytri búnaði, sem borinn er aftan við eyrað (Heimildir frá HTÍ).
Tveimur vikum eftir aðgerð er byrjað að stilla hjálpartækin. Þá er hljóðtíðnin hækkuð í skrefum því heilinn þarf tíma til að aðlagast því að heyra og meta hljóð. Fyrstu tvær vikurnar eru stillingarnar nánast daglega og síðan lengist á milli skipta.
Okkar von er að Christofer fái nánast fulla heyrn og nái málþroska á við jafnaldra sína. Hann hefur alla burði til þess með kuðingsígræðslutækinu.
Nokkrar myndir frá síðasta sumri
Ákvörðunin var engu að síður mjög erfið og margt sem fór í gegnum huga okkar dagana fyrir fyrstu aðgerðina. Við vorum þó sannfærð um að við værum að taka rétta ákvörðun fyrir Christofer.
Ég verð að hrósa fagmennskunni hjá HTÍ, Tryggingastofnun og Carolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Við fengum þrjá daga til að koma okkur til Svíþjóðar því læknirinn hans hjá HTÍ vildi koma honum í aðgerð áður en að allt færi í stopp vegna sumarfría. Þrátt fyrir lítinn fyrirvara var allt gert fyrir okkur til að ferlið gengi upp. Fyrsta aðgerðin gekk mjög vel og var Christofer farinn að hlaupa um allt nokkrum tímum eftir aðgerð.
Við erum svo lánsöm að eiga ömmu og afa í Svíðjóð sem og fullt af frændsfólki. Við náðum að kíkja í nokkra daga til ömmu (mormor) og afa (morfar) eftir sjúkrahúsferðina í kósí og rólegheit áður en við fórum heim.
Nokkrar myndir frá Svíðþjóðarferðinni eftir fyrri aðgerð.
Í september sama ár var kominn tími fyrir seinni aðgerðina. Aðdragandinn að þeirri aðgerð var þó alls ekki hnökralaus. Í þetta skipti átti að framkvæma aðgerðina á Íslandi. Kvöldið fyrir aðgerð fékk Christofer gubbupest og því varð engin aðgerð. Var því ákveðið að aðgerðin færi fram í Svíþjóð. Nokkrum dögum fyrir settan aðgerðardag fékk Christofer flensu og aðgerðinni því frestað þá í annað sinn. Í næstu tilraun var ég búin að halda Christofer heima frá leikskólanum í nokkrar vikur fyrir aðgerð til koma í veg fyrir umgangnspestir. Aðgerðardagurinn var festur og við töldum allt í höfn en viti menn veðrið var ekki með okkur í liði í þeirri tilraun. Öllu flugi við frestað vegna veðurs og ekki hægt að færa til aðgerðina. Fjórða tilraun, kominn janúar 2020 og ég búin að vera með Christofer heima meira og minna frá því í nóvember 2019. Veðrið leit ekkert of vel út í þetta skiptið og á tímabili leit út fyrir að flugið yrði fellt niður aftur. En sem betur fer komumst við út. Ég held að við höfum aldrei á ævinni verið eins fegin að komast til Svíþjóðar. Christofer rauk að vísu upp í hita fyrstu nóttina en sem betur fer lækkaði hann fljótt og aðgerðin var framkvæmd LOKSINS. Allt gekk eins og í sögu líkt og í fyrri aðgerðin og Christofer farinn að hlaupa um allt sama kvöld
Myndir frá seinni aðgerð.
Það sem skiptir okkur þó mestu er að Christofer fái mál sem fyrst, hvort sem það er í formi TAL- máls eða TÁKN- máls.
Christofer verður sex ára í sumar og í dag er málþroski hans á við málþroska tveggja til þriggja ára barna. Christofer er á leikskólanum Sólborg en byrjaði ekki þar fyrr en um þriggja ára aldur.
Ég var næstum því grenjandi í aðlöguninni því mér fannst hann loksins kominn heim. Loksins skyldi einhver hans þarfið 100%. Á Sólborg er TÁKN-málið notað til jafns við TAL-málið og allir njóta góðs af. Á Sólborg er hann í málörvun og táknmálskennslu. Hann fer einnig í talkennslu tvisvar í viku á vegum HTÍ og við gætum ekki verið heppnari með talþjálfa. Starfsfólkið á Sólborg eru fagmenn út í fingurgóma og við gætum ekki verið sáttari með að Christofer sé kominn til þeirra. Við vonum auðvitað að Christofer fái TAL-mál og geti talað við alla í fjölskyldunnni en þangað til gerum við okkar besta til að hann fái MÁL og að við fáum mál til að tala við hann.
Það er ekki langt síðan að við áttuðum okkur á því að við höfum ekki val um að flytja af höfuðborgarsvæðinu og að Chrisfofer hefur aðeins val um einn leikskóla og einn grunnskóla sem mæta öllum hans þörfum.
Fjölskyldan þarf líka að aðlagast og kynnast þessu umhverfi. Við þurfum öll að læra nýjar leiðir og aðrar áherslur. T.d. skiptir miklu máli að reyna að setja "orð á allt" sem við gerum, tala beint til hans, læra táknmál og tileinka okkur mikla þolinmæði. Fjölskyldan er að læra táknmál á Samskiptamiðstöð Heyrnalausra og Heyrnaskertra og táknmálstúlkur kemur heim aðra hverja viku og kennir okkur táknmál. Þau eru yndisleg á Fjölskyldumiðstöðinni og maður finnur sig alltaf svo velkomin þegar maður er hjá þeim. Að vísu hefur orðið hellings rask hjá okkur útaf Covid en er allt að breytast núna.

Það er hellings vinna framundan enda nýtt mál ekki lært á einni nóttu.
Það getur verið erfitt þegar engin skilur hvað þú ert að reyna að segja. Christofer hefur margoft reynt að segja okkur eitthvað og við þurfum að reyna að giska á hvað það er. Stundum hefur okkur hreinlega ekki tekist það. Hann getur oft sýnt okkur hvað hann vill en alls ekki alltaf. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu pirruð þið yrðuð ef þið gætuð hvorki skrifað né haft myndir fyrir öll orðin eða setningarnar sem ykkur langar að segja ef þið hefðuð ekki mál.
HVERNIG MYNDUÐ ÞIÐ TJÁ YKKUR EF ÞIÐ HEFÐUÐ EKKI MÁL?
Líklegast er tilfinningin eins og að vera í landi þar sem enginn skilur mann. En hugsaðu þér. Hvernig myndi þér líða ef það væri í þínu eigin heimalandi? Landi þar sem þér á að finnast þú öruggur. Landi sem þú fæddist í. Griðarstaður þar sem þú eins og allir aðrir eiga að geta fengið sömu tækifæri og sömu réttindi.
Á Íslandi eigum við tvö móðurmál, íslensku og íslenskt táknmál. Hvernig stendur þá á því að eingöngu annað málið er kennt? Við lærum ensku og dönsku. Af hverju er ekki jafn mikilvægt að læra táknmál? Sem er jú hitt íslenska málið okkar! Mig rámar í að hafa lært stafina á táknmáli þegar ég var barn en það náði ekki lengra en það.
Ég hef heyrt að ein af ástæðunum sé smæð hópsins. Heildarfjöldi heyrnalausra hér á landi eru 0,01 % eða um 300 einstaklingar. Hins vegar eru 15 til 20 þúsund Íslendingar heyrnaskertir. Í þeim hópi eru þeir sem fæddust heyrnaskertir, hafa hlotið heyrnaskaða af ýmsum ástæðum og þeir sem fá heyrnaskerðingu með aldrinum (Frétt á degi heyrnalausra inn á Vísir)
Þó svo að Christofer sé hluti af þessu 0,01%. Þá á hann foreldra, systkini, ömmur/afa, frændsystkini og vini. Engin af þeim kunna táknmál. Hver yrði % ef allir aðstandendur myndu bætast inn í mengið ? Eða allir sem þjónusta hann, kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, strætóbílstjórar, þjálfarar og svo lengi mætti telja?
Mér fannst ótrúlega krúttlegt þegar lítil vinkona hans Christofers hún Charlotte sem er dóttir Sólveigar og Karls var að reyna að tala við hann. Hún skildi ekkert afhverju hann svaraði henni bara ekki. Þá tók hún á það ráð að tala við hann ensku til að athuga hvort það virkaði betur. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst það ekki.
Þessi krútt eru búin að þekkjast fæðingu og eru búin að brasa heilmikið með húsbyggjandi foreldrum frá fyrstu skóflustunguni.
Ég segi þá enn og aftur ? Afhverju er táknmál ekki kennt í öllum grunn- og leikskólum landsins ?
Ég veit vel að Róm var ekki byggð á einum degi. En við getum alveg byrjað á að þjálfa kennara í að kenna táknmál. Ég held að kennari sem lærir grunn í táknmáli geti kennt grunn í táknmáli, rétt eins og önnur fög. Til dæmis kenna margir dönsku sem eru ekki innfæddir Danir eða reiprennandi í dönsku, ekki satt ? Mamma mín lærði kennarann fyrir nokkrum árum og þá gátu nemendur valið einn valáfanga í táknmálskennslu.
Ég hitti um daginn fyrrum þjálfara dóttur minnar sem var að ljúka við fimm ára nám í leikskólakennarafræðum. Hann segir við mig "veistu eftir allt námið mitt hefði ég ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera ef heyrnarlaust barn kæmi inn á deildina hjá mér. Hann sagði mér einnig að á þessum fimm árum hefðu nemarnir farið í einn sálfélagsfræðilegan kúrs á meðan kúrsarnir í sjálfbærni voru FIMM ! En þá er ég ekki að segja að sjálfbærni sé ekki mikilvæg. Ég trúði varla mínum eigin eyrum, að við værum bara enn í þessum sporum. Talandi um snemmtæka íhlutun og allt það !
Ég geri mér einnig fulla grein fyrir því að nauðsynlegt sé að þarfagreina hvað sé mikilvægast að börnin okkar læri. Peningar hljóta að spila stórt hlutverk og það er auðvitað mikil vinna að kenna heilli þjóð táknmál. Það er eins með táknmál og önnur mál að það er erfitt að tala reiprennandi nema að vera í kringum málið alla daga og tala það. En með hverju skrefinu komumst við lengra en við erum í dag.
Áhugarvert myndband þar sem allir í þrjú þúsund manna þorpi tala tákn-mál. 44% þropbúa er heyrnalaust (duff).
Fyrir þá sem vilja lesa meira þá skrifaði ég grein sem birtist á HTÍ þar sem ég lýsti heyrnarskerðingu Christofers sem og mikilvægi táknmáls, hljóðvistar og fl.