top of page
  • Writer's pictureEmmaSol

10 hlutir sem þarf að huga að við að rífa niður hús

Hefð er fyrir því að sækja um byggingarleyfi um nýbyggingu áður en hús eru rifin niður. Ef byggja á hús, færðu niðurrifsumsókn samþykkta yfirleitt samhliða byggingarleyfi. Ef farið er of geyst af stað, getur það tafið allt ferlið um marga mánuði. Það er talað um að fá öll leyfi við framkvæmdir líkt og við stöndum í geti tekið allt að tvö ár. Það virðist að miklu leyti stafa af löku skipulagi og það vantar leiðarvísa í gegnum frumskóg af pappírsvinnu sem tengist öllu leyfisferlinu.



  • Nr. 1. Finna verktaka (gröfufyrirtæki) sem er tilbúið að fjarlægja húsið.Gott er að fá tilboð frá nokkrum aðilum því verð geta verið MJÖG misjöfn. Hjá okkur vorum við að fá verð frá 1,5 millj.kr. upp í 6 millj.kr. Nauðsynlegt er að fá tilboð í að taka grunninn líka og förgun, en ekki bara niðurrif á húsinu. Ef verið er að fara í frekari framkvæmdir (nýbyggingu) er gott að fá tilboð í heildarpakkan (púða, brottfluttur uppgröftur, grús, fleygun o.fl. ). Oft getur verið ódýrara og fljótlegra (líklegra að þú komist að) hjá minni verktökum en stærri og tímakaupið minna. Það er mikið að gera hjá iðnaðarmönnum í dag og því gott að festa þá vel í tíma. Best er, ef hægt er, að m.v. að hann komi 10 dögum eftir að niðurrifsleyfið hafi verið samþykkt.

  • Nr. 2. Sækja um niðurrifsleyfi Oftast undir eyðublöð byggingarfulltrúa - í raun sama og "umsókn um byggingarleyfi", hjá Kópavogsbæ má finna það hér: https://www.kopavogur.is/is/ibuar/byggingarmal/byggingarleyfi/eydublod-byggingarfulltrua

  • Nr. 3. Starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinuHeilbrigðiseftirlitið þarf að koma og meta hvort eiturefni séu í húsinu eða nágrenni þess - en þá þarf sérstakan búnað og klæðnað og verktaka við að fjarlægja húsið og farga því. Þetta er skylda og hægt að fá miklar sektir ef ekki er rétt að farið. Bæði er hægt að fá sekt frá heilbrigðiseftirlitinu, vinnueftirlitinu og fl. Þeir útbúa vottorð, tekur um 5 daga og kostar um ~55 þ.kr. Þetta frumrit þarf gröfufyrirtækið að kvitta á sem verktaki og skila þarf því inn til bæjarins.

  • Nr. 4. Slökkviliðið þarf líka að koma og meta hvort stafi hætta af húsinu. Það getur verið eldhætta eða annað. Þetta er þó yfirleitt á könnu bæarins / borgarinnar. Það er deild innan slökkviliðsins sem heitir brunaáhættumat og sér um þetta mat.

  • Nr. 5. Lokanir Best er að vinna sér í haginn með því að tala við allar veitur sem koma að húsinu. Það þarf að loka rafmagni, heitu vatni, köldu vatni og gagnaveitu. Þetta getur verið sitthvor aðilinn, en hjá okkur var Kópavogsbær með kalda vatnið, Veitur með heitt vatn, Orka Náttúrunnar með rafmagnið og Gagnaveitan var með ljósleiðara í gegnum lóðina. Hægt er að sækja lagnateikningar fyrir gröfumanninn líka. Þetta getur tekið svolítin tíma og því nauðsynlegt að þrýsta á þessa aðila að loka þessu sem fyrst. Okkur fannst líka gott að fá staðfestingu á að búið væri að loka, til að eiga ekki á hættu á að skemma eitthvað eða slasa einhvern á vinnusvæði.

  • Nr. 6. Þegar allir papírar eru komnir inn er þetta sent á fund byggingarfulltrúa (yfirleitt samhliða umsókn um byggingarleyfi)Og samþykkt / hafnað. Því miður er það undartekning frekar en reglan að niðurrifsumsókn sé samþykkt, þó byggingarleyfi sé ekki samþykkt. Ef vitað er að byggingarleyfi verði samþykkt, en það þarf að bregðast við nokkrum athugasemdum, þá geta byggingarfulltrúar verið liðlegri að hleypa niðurrifsleyfinu í gegn.

  • Nr. 7. Tæma húsiðEf þið viljið spara ykkur aurinn, þá getur verið gott að taka allt innan úr húsinu, sérstaklega lifandi efni líkt og timbur og allt þungt. Við tókum allar innréttingar út, hurðir, hurðakarma, ofna, bakaraofna, viftur, ljósaperur, parket, teppi, panila og fleira og fleira. Gott er að auglýsa þetta gefins ef þið eruð ekki komin í tímaþröng. Oft er fólk tilbúið að koma og taka niður innréttingar, hurðir, ofna o.fl. gegn því að fá það á lágu verði eða gefins.

  • Nr. 8. Gröfumaður hefst handa Sumir gröfumenn/konur eru tilbúnir að leyfa ykkur að aðstoða við handflokkun á efni. Þetta er vissulega tímakaup og því getur vel borgað sig að aðstoða eins mikið og fólk getur.

  • Nr. 9. Staðfesting á niðurrifi Næst þarf bærinn/borginn að senda aðila/byggingarfulltrúa til að staðfesta að húsið hafi verið í raun rifið. Frumritið af starfsleyfinu og staðfestingu er send til sýslumanns til þinglýsingar.

  • Nr. 10. Staðfesta niðurrif Bærinn þar að senda staðfestinguna á Þjóðskrá sem afskráir fasteigninna. Þegar Þjóðskrá er búið að afskrá fasteignina er hægt að fella niður skyldutryggingar á fasteigninni og staðfesta að fasteignagjöld og önnur gjöld sé búið að fella niður.

Þá er hægt að hrósa sigri hrósandi yfir að hafa tekist að rífa niður eitt stykki hús!

Þetta er þó aðeins toppurinn á ísjakanum af pappírsvinnu... Næsta verkefni hjá okkur er að skipta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð. Við erum enn að bíða eftir byggingarleyfinu - en erum með gröfumennina í startholunum tilbúna í verkið.

1,049 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page